29.8.2009 | 15:52
Verslunardagur í dag
Þá er aftur komið kvöld hér í Peking og við erum öll dauðþreytt eftir daginn og sjálfsagt spilar ferðalagið inn í líka. Við sváfum næstum til hádegis í morgun en drulluðumst á fætur þegar Snorri bankaði á hurðina hjá okkur. Hann var þá búinn að vera vakandi frá kl. 8 þar sem hann var svo skynsamur í gærkveldi að fara að sofa en við enduðum á að horfa smá á flakkarann og klukkan því að ganga 1 þegar við fórum loks að sofa. (Fyrir þá sem ekki vita það, þá er Snorri strákur sem er með Addó í skólanum og við vorum samferða hingað út).
Við skunduðum beint á McDonalds og fengum okkur burger... þeir eru greinilega alls staðar eins, sama hvar á hnettinum maður er. Svo kíktum við á markaðinn sem er við göngugötuna hérna rétt hjá. Þar var hægt að skoða, versla og borða allt mögulegt. Það var mjög gaman að skoða alls konar smádót en það sem var mest spes var maturinn þarna. Það var t.d. hægt að fá heila krossfiska á spjóti, alls konar pöddur og skordýr sem sprikluðu lifandi á spjótum þangað til einhver vildi kaupa þau og þá voru þau steikt. Kínverjarnir hámuðu þetta í sig og þykir þetta greinilega mikið lostæti hér í Kína. Við lögðum hins vegar ekki í þetta... kannski seinna... en þetta er alveg svona Fear Factor dæmi. Hundurinn var sko ekkert miðað við þessi skordýr.
Við fórum svo líka á annan markað sem var á sex hæðum og þar var sko hægt að versla. "Merkjavaran" flæddi þarna út úr hillunum og sölumennirnir ætluðu mann lifandi að éta. Ég komst að því í dag að Kínverjar eru sko ekki hræddir við snertingu. Ef ég ætlaði að hætta við að kaupa eitthvað því ég fékk ekki nógu gott verð (er sko orðin svaka klár í prúttinu) þá var bara haldið í mann og maður þurfti að beita hörku til að komast í burtu, hélt á tímabili að ég fengi marblett eftir eina Kínakellinguna sem var ansi ákveðin. Setningin "only for you my friend" heyrðist þarna og svo sögðu þeir líka oft "because I like you, I give you this price" hehe... ótrúlega spes menning. Ég varð strax þreytt á þessu og oft bara nennti maður ekki að reyna að kaupa neitt því þetta tók svo langan tíma. Ég prúttaði t.d. tvo boli sem ég keypti úr 298 kínapeningum niður í 60 kínapeninga en ég hefði getað farið miklu neðar en ég bara nennti því ekki. 60 kínapeningar eru sko um 1200 ísl. kr. þannig að mér fannst þetta bara vel sloppið. Ég verslaði 2 peysur og 4 boli á samtals 4100 kr. Strákarnir keyptu eitthvað meira en ég en Addó er svakalegur í prúttinu. Ég skil ekki hvernig hann nennir þessu en fínt að láta hann gera þetta fyrir mann hehe.
Við vorum svo orðin alveg uppgefin eftir þessa verslunarferð þannig að við kíktum bara á KFC í kvöldmat og hámuðum í okkur kjúklingabita. Eftir það kíktum við aðeins á Bar Street en ákváðum að fara snemma heim þar sem við þurfum að vera komin á fætur fyrir kl. 7 í fyrramálið því við ætlum að kíkja á Kínamúrinn. Jæja, klukkan að verða 12 á miðnætti... farin að sofa svo ég geti gengið á The Great Wall of China á morgun.
Endilega kommentið sem mest, það er rosa gaman að lesa þau
Kv. Alda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2009 | 14:25
Fyrsti dagurinn í Kína að kveldi kominn...
Jæja, þá erum við að búa okkur undir háttinn hér í Peking. Ferðin gekk mjög vel. Tókum svefntöflur í vélinni og rotuðumst gjörsamlega við þær þannig að flugið var með besta móti. Við gistum á einhverju hosteli hér í miðbænum sem er nú ekki alveg það flottasta fyrir minn smekk (Alda) en það er svosem allt í lagi.
Við eyddum deginum í að rölta um miðbæinn og fengum okkur svo að borða. Hvað haldiði svo að gikkurinn sjálfur hafi smakkað á? Hundi, kanínu og svo kjúkling. Urðum nú að panta eitthvað sem væri "venjulegt" en svo var það kjúklingurinn sem var verstur. Hundurinn var nú bara alveg ágætur en maður fékk hálfgert samviskubit yfir að vera að slafra í sig hundarifjum o.s.frv.
Kínverjarnir eru búnir að loka á Facebook þannig að við þurfum að skoða það eftir helgi, að kaupa forrit í tölvuna til að komast hjá þessari fyrirhyggjusemi. Vonum að þetta reddist því ég meika ekki 10 vikur án Facebook hehe...
Eftir matinn var tekið bæjarrölt þar sem við ætluðum að skoða útimarkaðinn en þá var lögreglan búin að loka svæðinu og öskraði í gjallarhorn og vísaði öllum frá. Við skelltum okkur þá bara í fótanudd... sem var reyndar ekkert bara fótanudd, heldur var bakið og axlirnar nuddaðar líka. Fínt fyrir lúinn skrokkinn.
Jæja, best að fara að koma sér upp í rúm. Góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.8.2009 | 17:21
Komin til Köpen
Mætt í kóngsins Köpen í 3 tíma stopp. Fengum okkur Sprite á 500 kall og gjaldeyrinn langt kominn. Vonum að Facebook virki í Kína en annars er það bara þetta blogg Höfum þetta ekki lengra í bili en bætum einhverju við þegar við komum til Beijing.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)