9.10.2009 | 18:00
Smá ferðasaga
Frívikan
Erum stödd í Guilin eins og er og búin að hafa það mjög gott síðastliðna viku bara. Búið að fara til Shanghai, þar sem allir misstu sig algerlega á mörkuðunum og fólk að fá símhringingar frá vísa um það hvað sé í gangi hérna í Kína... fyrsti dagur ferðarinnar í Shanghai var að koma sér fyrir á hótelinu og svo farið beint á Nanjing, sem er risavaxin verslunargata í Shanghai. Allt heldur stærra en í litlu Qingdao okkar og fannst sumum þetta heldur óþægilega mikið af fólki á einum stað, enda varla hægt að þverfóta þarna fyrir fólki.
En við létum það þó ekki stoppa okkur og æddum af stað niður Nanjing í matarleit og voru einhverjar hugmyndir um KFC en sökum þess að lýðheilsustöð fylgist grannt með okkur varð Pizza Hut fyrir valinu, miklu betra alveg :) þar var ég minntur á að maður á bara að fá sér pizzu á pizza stöðum og pasta á Ítölskum stöðum. Gleymdi því reyndar í dag ásamt fleirum þegar við fengum okkur pizzu á einum kínverskum hérna í dag... úfff það var mesta viðbjóðs pizza sem ég hef bragðað á held ég bara... en áfram í Shanghai, við þrömmuðum svo niður göngugötuna eftir matinn og stelpurnar beint inn í einhverja "rosa fína búð" en Ágúst og Snorri höfðu vit á því að forða sér í burtu meðan ég sat fyrir utan og fylgdist með mannlífinu, sem var ansi merkilegt og komst að því að það kom einhver að tína upp úr ruslafötu, sem var þarna rétt hjá mér á svona ca 3-5 mín fresti, það stoppaði því engin dós, flaska, kveikjari, pappaspjald eða poki lengi þarna í tunnunni og má segja að Kínverjarnir séu með mikla endurvinnsluhæfileika miðað við þessar pælingar mínar...
Ég og Alda fórum svo beinustu leið í risa moll eða The Super Brand Mall eins og það er kallað, sem er hinumegin við ánna, á Pudong svæðinu sem er fjármálahverfið í Shanghai og þar var maður dreginn um eins og þræll frá fyrri öldum um allt svæðið og látinn bera mörg tonn af pokum sem var að sjálfsögðu alveg hrikalega gaman fyrir mig eins og gefur að skilja, maður á bara að horfa á þetta með opnum hug eins og mér var bara bent á og þá er þetta bara allt gott :) ... Við sáum svo mæðgurnar skömmu eftir að við mættum þarna í mollið inn í H&M og voru þær vel klifjaðar en vantaði burðarmann eins og mín hafði þannig að þær náðu ekki að versla alveg jafn mikið, en stór sá samt á öllum búðarhillum eftir þessa dvöl okkar þarna í H&M...
Dagur tvö... fórum að skoða TV Tower sem er mögnuð bygging og held ég fari með rétt mál, annar stærsti svona turn í heimi eða 350 metrar þar sem maður fær að fara hæðst. Við mættum á svæðið upp úr 10 og ætluðum sko að vera snemma til að þurfa ekki að bíða mjög lengi í röð.... já einmitt... það var kílómeters röð bara til að komast inn í bygginguna.... annar kílómeter til að komast að lyftunni og þurftum svo aftur að bíða til að taka lyftu nr 2 til að komast alla leið... þetta tók um 3 klukkustundir og vorum svo í 10 mínútur uppi og tókum svo ekki nema ca 25-30 min að komast niður og út aftur...
En þetta var góð ferð og gaman að sjá Shanghai frá þessu sjónarhorni sem ég hafði þó áður séð. Eftir þessa dvöl okkar þarna við turninn var ákveðið að fara á markað sem við svo gerðum og allir misstu vitið þegar þangað var komið, það var shoppað eins og enginn væri morgundagurinn... nærur, sokkar, bolir, skór, og og og og og.... kreisí Íslendingar...
Það var svo ákveðið að stelpurnar færu aftur í mollið daginn eftir meðan ég og feðgarnir, Ágúst og Snorri, færum á raftækjamarkað... jamm jamm.... fá að fikta í tökkum og skoða einhv græjur. Við eyddum ca 4-5 tímum í að skoða og fá verð í allskonar drasl meðan stelpurnar gerðu allt vitlaust í stóra mollinu, það var svo borðað og við hittumst svo öll aftur til að fara aftur á markaðinn... því það var ekki búið að kaupa alveg nógu mikið sko... það voru flestir farnir að þekkja okkur þarna á markaðnum enda ekki skrítið þar sem allir hraðbankar voru að verða tómir þarna í hverfinu eftir þetta tveggja daga brjálæði... það var búið að læsa öllu á markaðnum báða dagana sem við fórum klifjuð af drasli út og liðið með stjörnur í augunum að telja seðlana í öllum básum eftir okkur...
Síðasti dagurinn okkar í Shanghai var ákveðið að fara aftur á markaðinn því við urðum að kaupa fleiri töskur til að koma öllu dótinu fyrir þannig að það var ætt af stað fyrir hádegi en hafði verið ákveðið að hitta hana Amöndu góða vinkonu mína hérna í Kína í hádegismat. Hún sýndi okkur 5 stjörnu hótel sem hún er að vinna á og er það allt gert úr endurunnu efni, gamlir múrsteinar og fjalir sem gerir það mjög flott. Enda kostar nóttin á svítunni þar um 80 þúsund íslenskar ... ekki nema Fórum svo að borða þar sem ég komst að því að hún væri orðin GIFT kona... og hittum svo eiginmanninn eftir matinn. Hún var rosa glöð og búin að fá stöðuhækkun á hótelinu og var mjög gaman að hitta hana aftur.
Það var svo farið á markaðinn að sjálfsögðu í töskuleit sem tókst alveg með ágætum ásamt smá öðru með auðvitað... smá bindi, eina peysu, nokkra sokka og svona... varð til þess að það komst svo ekkert allt í töskurnar hjá okkur og urðum að taka með okkur poka í flugið með skóm, peysum og öllu þessu dótaríi þið vitið...Skruppum svo aðeins í gamla bæinn og röltum þar um í smá stund... og versluðum smá ... hehe...
Við smelltum okkur á gamlar heimaslóðir mínar í Shanghai og fórum í nudd þar sem ég og gamlir skólafélagar fórum mikið á og fengum okkur klukkutíma táslunudd sem var alveg helv gott eftir allt þetta labb á mörkuðunum
Komum svo til Guilin í gær og eyddum deginum á ánni Li sem var alveg hrikalega fallegt og verður sett inn myndasería af því öllu saman seinna. Við ákváðum að taka lokalinn á þetta og tókum litla pramma með þessum fínu bambus stólum á, niður ánna þar sem okkur þótti vera okrað heldur mikið á þessum stóru fínu bátum sem eru eins og síldartunnur það er troðið svo í þá. Eftir ferðina niður var okkur svo troðið í eitthvað tæki sem ég get varla lýst nema kannski eins og hálfri stærð af svona litlu bitaboxi sem var búið að taka báðar hliðar af og setja trébekki í. Heldur sérstakt en við komumst á leiðarenda sem var Yangshuo (ef ég man rétt) og fengum þar þessa ógeðspizzu sem ég var búin að minnast á áður...
Á morgun verður svo farið á hrísgrjóna akra sem verður vonandi gaman að sjá...
Mikið búið að gerast og segjum ykkur meira síðar
Athugasemdir
frábært að þið hafið lesið ráðleggingar LHS :) Góða skemmtun og gaman að fylgjast með ykkur. Væri alveg til í smá shopping túr á ódýrum mörkuðum !!!
kær kveðja úr rokinu Elva G.
Elva Gísladóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 19:46
Bara svo það fari ekkert á milli mála þá verslaði Addó alls ekki minna en ég.... ef ekki bara meira...
Kv. Alda
Addó og Alda, 10.10.2009 kl. 11:46
Fréttir hafa borist til landsins, að borið hafi á vöruskorti í Kína. Kolóðir íslendingar hafi gert innrás í verslunarmiðstöðvar og markaði og tæmt hillur og fataslár á örskots hraða. Ættingjar og vinir innrásarliðsins vona að munað hafi verið eftir að kaupa eithvað handa þeim.
Jóhanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:34
Hæhæ - frábært að lesa skrifelsið um frívikuna ykkar. Þetta hlýtur að hafa verið alveg einstakt allt saman. Fann til mikillar samúðar með Addó vegna burðarmannshlutverksins - en dáist að því hvað hann horfir á þetta hlutskipti sitt með opnum huga
Vildi að minn betri helmingur væri svona jákvæður gagnvart verslunarferðum sinnar frúar
Heyrist þó á Öldu að hann hafi ekki haft efni á að tuða neitt...
Er farin að nudda saman höndum af tilhlökkun við tihugsunina um stórsýninguna sem ég vona að Alda muni halda á öllu kruðeríinu....
Finnst að Kínverjar geti alveg lánað okkur Íslendingum örfáar krónur útá það hvað þið eruð búin að styrkja ferðamannaiðnaðinn þeirra mikið..
Björg (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:39
Þið eruð sannir íslendingar - það leynir sér ekki! Við erum stolt af ykkur, og nú tala ég fyrir hönd allrar þjóðarinnar! Öll myndum við vilja vera í ykkar sporum enda er gott tilboð meira freistandi þessa dagana en snúður með bleiku glassúr.
Kauptækni ætti að vera kennd í grunnskólum. Alda gæti hugsanlega sett námsefnið saman.
Marta (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 00:46
How to shop in Cina - For dummies, þetta er alveg efni í bók held ég bara. Ég myndi kaupa hana ;-)
Kveðja, Hansína.
Hansína (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 08:27
Vá ég fer bara í sæluvímu að lesa um allar þessar verslunarferðir. You make me proud Alda :-)
Þóra (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 13:06
hvað er í gangi þarna í shanghai...Amanda búin að gifta sig og búið að loka cherry´s!! ég ætla rétt að vona að stelpurnar að nuddstofunni hafi þekkt þig???
Andri (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 13:46
Gamli gjémli! Komiði sæl og blessuð!
Ég hef fylgst reglulega með blogginu hjá ykkur og skemmti mér vel yfir því. Snilld hjá þér Addó að skella þér aftur til China, væri svakalega til í að skella mér aftur! EN HA!? Mrs Wangzen bara búin að gifta sig!?!? :O Það kalla ég fréttir til næsta sveitarfélags! OG Cherry!? Settist hún bara í helgan stein, með allri familyunni þegar viðskiptum okkar lauk!? Annars frábært að lesa bloggið hjá ykkur skötuhjúum, var nú aldeilis kominn tími hjá mér til þess að kvitta fyrir mig :)
Kv. Himmi
Ps. Ég man að þið voruð að kvarta yfir að komast ekki á fésbúkkið, ef þið eruð ekki búin að redda því þá nýttum við okkur þessa síðu hér þegar við vorum úti gamli, þú ert eflaust búinn að gleyma henni:
http://anonymouse.org/anonwww.html
Hilmar Thor Hilmarsson (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.