Qingdao

Þá erum við komin til Qingdao. Vildi að ég gæti sagt að við værum flutt inn í fína íbúð og allt liti vel út en svo er nú því miður ekki. Dagurinn í dag hefur verið sá allra ömurlegasti dagur sem ég hef upplifað lengi.

 

Ég ætla ekkert að fjalla um gærdaginn, þ.e. heimsóknina til Maó og Sumarhöllina. Addó var byrjaður að semja þá færslu og við birtum hana líklega seinna í kvöld. Ég ætla hins vegar að byrja frásögnina þegar við komum út úr næturlestinni í morgun kl. 7 að staðartíma. Hefst þá saga dagsins....

 

Þegar við komum út af lestarstöðinni byrjuðum við á að fara á KFC í morgunmat. Það var versti morgunmatur sem ég hef smakkað. Þeir eiga bara að halda sig við kjúklinginn. Eftir þessa misheppnuðu máltíð fórum við á háskólasvæðið. Borgin sjálf lítur mjög vel út og líst mér bara vel á að skoða hana betur næstu vikurnar. Þegar við komum á skráningarskrifstofuna hófst eitt það skrítnasta skráningarferli sem ég hef séð. Það voru nokkrir íslenskir nemendur þarna en enginn þeirra fékk sömu afgreiðsluna, t.d. þurftu sumir að skila inn passamyndum en aðrir ekki. Til þess að komast inn á þessa skrifstofu voru allir spurðir út í hvernig þeir komust til Qingdao og svo vorum við öll hitamæld. Sem betur fer vorum við ekki með hita því þá hefðum við verið send á sjúkrahúsið og svo hugsanlega í sóttkví. Það er mjög mikil hræðsla hér við Svínaflensuna. Fólk úti á götu gengur um með grímur o.s.frv. Allir starfsmennirnir á flugvellinum eru t.d. með grímur og það eru ALLIR sem koma til landsins hitamældir þegar þeir fara í gegnum tollinn. Maður þakkar bara fyrir að sleppa alltaf í gegn um þessi tékk.

 

En já áfram með sögu dagsins.... Eftir skráningarferlið hittum við þá sem voru að leigja út íbúðina sem við höfðum ætlað að leigja með öðrum íslenskum nemendum, þ.e. fjórir nemendur og svo einhverjir fylgifiskar. Íbúðin stóðst hins vegar ekki væntingar okkar. Tvö svefnherbergi voru t.d. ekki stúkuð af og því ekki mikið um næði þar!! Svo voru persónulegir hlutir eiganda íbúðarinnar út um allt, þ.e. allir skápar voru fullir af dótinu hans og því hefðum við ekki getað sett fötin okkar inn í skápa. Þar fyrir utan var íbúðin ekkert sú þrifalegasta. Það var því ákveðið að við myndum kynna okkur betur þær íbúðir sem eru til leigu í borginni áður en við tækjum ákvörðun með þessa íbúð. Held nú samt að það sé ekki séns að við tökum henni, því það vill enginn vera í herbergi sem er ekki lokað af.

 

Við skelltum okkur því aftur yfir á skráningarskrifstofuna til að fá herbergi á campus svo við gætum komist í sturtu og hrein föt. Við vorum ekki búin að fara í sturtu síðan morguninn áður og það var því kominn tími á sturtu “fyrir mörgum svitadropum síðan”. Þá höfðum við sofið í fötunum í lestinni og við því ansi krumpuð og sjúskuð. Eftir smá rugl á skrifstofunni með að fá í gegn að taka bara herbergi á campus í eina viku, þá kom upp smá vesen þar sem ég og Addó máttum ekki vera í sama herbergi, þar sem við erum ekki gift!!!!! Við leystum það hins vegar þannig að Addó og Snorri eru “saman” í herbergi og ég er ein í herbergi... eða það er allavega þannig á pappírunum. ;)

 

Þegar við komum upp á herbergið á heimavistinni kom í ljós að herbergin þar eru ógeðsleg einu orði sagt!! Herbergið er svo skítugt að við gátum ekki hugsað okkur að fara í sturtu nema í skóm og maður passaði sig að snerta sem minnst. Herbergið er alveg óþrifið og skíturinn á veggjunum er með ólíkindum. Þá sáum við eina frekar stóra pöddu inni á baði. Ég held það hafi verið kakkalakki. Snorri sá svo einhverjar litlar pöddur inni á baðinu hjá sér. Við skelltum okkur því bara í sturtu, sem var meira að segja köld, því hitakúturinn var ekki í sambandi, fórum í hrein föt og aftur út. Þetta var samt mjög kærkomin sturta, þrátt fyrir illan aðbúnað ;) Fyrir þá sem þekkja mig, vil ég taka fram að þetta er ekki bara eitthvað pjatt í mér. Addó finnst þetta herbergi líka ógeðslegt! Hehe...

 

Við hittum svo á Ásu sem er með Addó í skólanum, hún er í herberginu á móti okkur. Hún skellti sér í allsherjarhreingerningu þegar hún kom og herbergið hennar því bara fínt. Hún sagði reyndar að veggirnir hjá sér hefðu ekki verið svona skítugir eins og í okkar herbergi þegar hún fékk herbergið, enda virtust hennar veggir tiltölulega nýmálaðir. (Það er kannski rétt að taka fram að Ása (Ásborg) er úr Keflavík, ef einhverjir lesendur þekkja til hennar en dóttir hennar er hérna líka.)

 

Við vorum orðin glorsoltin um þetta leyti enda komið eftir hádegi. KFC varð aftur fyrir valinu hehe... en í þetta sinn var bara týpíski matseðillinn í boði og því fórum við södd frá borðinu í þetta skiptið. Ég sit núna á internet kaffihúsinu á campusnum. Það kostar um 10 kr. íslenskar að vera nettengdur í klukkutíma. Það er nú ekki mikið J Strákarnir eru núna að skoða íbúðir með stelpunum tveimur sem við ætluðum að leigja með. Við gátum ekki farið öll nema taka aukaleigubíl. Ég er með krosslagða putta og vona að þeir finni eitthvað almennilegt svo við getum flutt út úr þessari skítaholu sem við erum í núna sem fyrst. Ég er ekki alveg að meika svona viðbjóð og nenni hreinlega ekki að þrífa þetta ógeð. Hey var að kaupa mér kók hérna og það kostar bara 10 kr. íslenskar hehe... ef maður skilar glerinu... Frekar ódýrt að lifa hérna að sumu leyti. Annars er frekar skrítið að sitja hérna á netkaffinu. Ég er búin að koma hingað tvisvar í dag og í bæði skiptin hefur mig farið að svima eftir að hafa verið hérna í smá tíma. Þetta er svona svimi eins og ég myndi halda að áhrifin af fíkniefnum eru. Allt herbergið færist svona til og eitthvað... eða kannski er ég bara komin með sykurþörf. Best að þamba kókið og kannski bæta við súkkulaði ;)

 

Hreinlætisstandard Kínverja er langt undir okkar mörkum. Það er almennt mjög óþriflegt hérna og sést það t.d. best á klósettaðbúnaðinum hérna. Það eru venjulega bara holur í gólfinu sem maður þarf að nýta sér þegar kallið kemur. Það er undantekning ef það er klósettpappír í boði enda er ég farin að ganga um með bréf hvert sem ég fer. Það væri minnsta málið að nýta sér þessar holur ef það væri bara ekki piss út um allt í kringum holuna líka.... en þetta venst allt saman. When you´ve got to go, you got to go... eða svo hef ég heyrt ;)

 

Jæja, nóg komið af blaðri í dag... Vonandi hef ég góðar fréttir á morgun J


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ojjj bjakki bjakk! En fúlt að heyra þetta. Vonandi verður þetta svona eins og alvöru ævintýri...byrja frekar illa en verður svona líka ljómandi gott á endanum ;-) hehe humm skrýtin þessi "víma" sem þú ferð í þegar þú mætir á kaffihúsið...held að þetta sé ekki sykurþörf þó svo þú þú þurfir oft að drekka soldið mikið kók ...en vonandi koma þeir með ofur góðar féttir úr íbúðaleiðangrinum, hlakka til að heyra, nú og ef ekki að þá veit ég amk. um einn súper góðan skipuleggjara og þrifara sem er með í hópnum!! heheh knús

Ásdís (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 10:18

2 identicon

ok ég væri lögð af stað heim aftur hahaha....

vonandi fáið þið íbúð í lagi og að allt verði súper héðan í frá!

Passaðu svo drykkina þína, maður veit aldrei hvað fólki dettur í hug, sérstaklega ekki þegar svona eldgamlar mæður eins og þú sitja einar og yfirgefnar hehe...

Gunnhildur (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 10:57

3 identicon

Úfff, ég sé þig í anda elsku snyrtipinninn minn.  Vona svo sannarlega að það rætist úr þessu.  Finnur þú ekki neina einkennilega lykt þarna inni á netkaffinu?  Er ekki alltaf lykt af dópi?  Mér er bara alveg hætt að lýtast á þetta.

Jill spáði því í gær að þú myndir ekki endast þarna allann tímann.  Hún hefur heyrt alveg ótrúlegar sögur af aðstæðum í Kína og nú fer ég að skilja hvað hún var að meina.

Bið kærlega að heilsa og vona að það rætist úr þessu öllu.  Kv, mamma.

Jóhanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 12:13

4 identicon

Kræst!  Þið hafið samúð mína alla og þá sérstaklega Alda, þar sem skítaþröskuldurinn hennar er í hærri kantinum.  Í ofanálag hlýtur það einfaldlega að vera hræðilegt að þurfa að fara á klósettið .  Hef bara aldrei heyrt annað eins.  Ekki að undra að Kínverjar séu hræddir við svínaflensuna, fyrst hreinlætisstatus þeirra er með þessum hætti;  er þetta kannske hinn nýi fólksfjölgunarhemill kínverja?   Nei,nei, smágrín.  Vona innilega að þið fáið almennileg herbergi sem allra fyrst.  Sendi ykkur mínar bestu "upppeppunarkveðjur"

Björg (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 12:18

5 identicon

Ohh my, þetta er rosalegt. En þetta reddast! Mundu það bara.

Ég vorkenni bara greyið Addó að þurfa að þola þig núna. Get rétt ímyndað mér ástandið á geðslaginu.  Að lokum tek ég undir með mömmu, þú ert örugglega bara í vímu á netkaffihúsinu. Vertu bara þar and all your troubles will disappear...!

Marta (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 13:55

6 identicon

Oh god... Ég vona að þetta fari batnandi hjá ykkur, Alda mín!! Úff... Þetta getur eiginlega bara orðið betra, og það er nú... eh jákvætt?? Gangi ykkur vel að finna íbúð! Ég hlakka til að heyra framhaldið... ;)

Bára (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 22:21

7 identicon

Hér bíða allir spenntir eftir freyri fréttum Kv, mamma.

Jóhanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 13:34

8 identicon

Hún kemst ekki inn á bloggið. Það er einhver net-ritskoðun í gangi in the great state of Qingdao!

Marta (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 14:52

9 identicon

hæhæ

þetta hlýtur að hafa verið ömulegur dagur skítugir veggir pöddur og rusl. vonandi finnið þið góða íbúð og að allt gangi vel. Við söknum ykkar öllhérna heima. ég er að fara með mömmu  til  dammerkur ég er að fara að tengja skepe þegar ég kem frá Damörku.hlakka til að fá ykkur aftur heim. sendi ykkur meiri póst þegar ég kem heim frá Dammörku.

kv.

Ólöf Ásta

Ólöf Ásta Arnþórsdíttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 21:32

10 identicon

hæhæ ég vona að það gangi hjá ykkur að fá eitthvað betra, þetta er bara vibbi  en það verður gaman að fylgjast með ykkur hérna á blogginu  Hafið það gott og gangi ykkur vel.

Kveðja Gunnhildur (frænka Addó)

Gunnhildur (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 12:33

11 Smámynd: Addó og Alda

Erum búin að skoða mikið af vibba íbúðum og öðrum skárri, þetta skýrist allt á morgun,  hlakka til að heyra meira frá ykkur öllum. verið að henda mér út af netkaffinu....  later :)

Addó og Alda, 4.9.2009 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband