Verslunardagur í dag

Þá er aftur komið kvöld hér í Peking og við erum öll dauðþreytt eftir daginn og sjálfsagt spilar ferðalagið inn í líka. Við sváfum næstum til hádegis í morgun en drulluðumst á fætur þegar Snorri bankaði á hurðina hjá okkur. Hann var þá búinn að vera vakandi frá kl. 8 þar sem hann var svo skynsamur í gærkveldi að fara að sofa en við enduðum á að horfa smá á flakkarann og klukkan því að ganga 1 þegar við fórum loks að sofa. (Fyrir þá sem ekki vita það, þá er Snorri strákur sem er með Addó í skólanum og við vorum samferða hingað út).

Við skunduðum beint á McDonalds og fengum okkur burger... þeir eru greinilega alls staðar eins, sama hvar á hnettinum maður er. Svo kíktum við á markaðinn sem er við göngugötuna hérna rétt hjá. Þar var hægt að skoða, versla og borða allt mögulegt. Það var mjög gaman að skoða alls konar smádót en það sem var mest spes var maturinn þarna. Það var t.d. hægt að fá heila krossfiska á spjóti, alls konar pöddur og skordýr sem sprikluðu lifandi á spjótum þangað til einhver vildi kaupa þau og þá voru þau steikt. Kínverjarnir hámuðu þetta í sig og þykir þetta greinilega mikið lostæti hér í Kína. Við lögðum hins vegar ekki í þetta... kannski seinna... en þetta er alveg svona Fear Factor dæmi. Hundurinn var sko ekkert miðað við þessi skordýr. Cool

Við fórum svo líka á annan markað sem var á sex hæðum og þar var sko hægt að versla. "Merkjavaran" flæddi þarna út úr hillunum og sölumennirnir ætluðu mann lifandi að éta. Ég komst að því í dag að Kínverjar eru sko ekki hræddir við snertingu. Ef ég ætlaði að hætta við að kaupa eitthvað því ég fékk ekki nógu gott verð (er sko orðin svaka klár í prúttinu) þá var bara haldið í mann og maður þurfti að beita hörku til að komast í burtu, hélt á tímabili að ég fengi marblett eftir eina Kínakellinguna sem var ansi ákveðin. Setningin "only for you my friend" heyrðist þarna og svo sögðu þeir líka oft "because I like you, I give you this price" hehe... ótrúlega spes menning. Ég varð strax þreytt á þessu og oft bara nennti maður ekki að reyna að kaupa neitt því þetta tók svo langan tíma. Ég prúttaði t.d. tvo boli sem ég keypti úr 298 kínapeningum niður í 60 kínapeninga en ég hefði getað farið miklu neðar en ég bara nennti því ekki. 60 kínapeningar eru sko um 1200 ísl. kr. þannig að mér fannst þetta bara vel sloppið. Ég verslaði 2 peysur og 4 boli á samtals 4100 kr. Strákarnir keyptu eitthvað meira en ég en Addó er svakalegur í prúttinu. Ég skil ekki hvernig hann nennir þessu en fínt að láta hann gera þetta fyrir mann hehe. Wink

Við vorum svo orðin alveg uppgefin eftir þessa verslunarferð þannig að við kíktum bara á KFC í kvöldmat og hámuðum í okkur kjúklingabita. Eftir það kíktum við aðeins á Bar Street en ákváðum að fara snemma heim þar sem við þurfum að vera  komin á fætur fyrir kl. 7 í fyrramálið því við ætlum að kíkja á Kínamúrinn. Jæja, klukkan að verða 12 á miðnætti... farin að sofa svo ég geti gengið á The Great Wall of China á morgun. Smile

Endilega kommentið sem mest, það er rosa gaman að lesa þau InLove

Kv. Alda 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

öfund og aftur öfund... kínamúrinn... ekki slæmt að fara þangað... Góða skemmtun og mundu að taka fullt af myndum... hlakka til að heyra hvernig var að sjá hann

Erla Heimisd. (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 15:58

2 identicon

Hæ Alda mín, ég er enn að jafna mig eftir skordýrasöguna - en hey er KFC eða MacDonalds við Kínamúrinn? Eða á bara að grilla nokkrar pöddur...... ;-) Kv. Hansína.

Hansína Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 18:16

3 identicon

Pöddur eru hollarog próteinríkar, þ.e. ef þær eru ekki eitraðar.  En mér líst nú samt betur á hundinn.  Og þetta var ekki í fyrsta skipti sem Alda át kanínu, því ég man eftir að hafa eldað kanínu í gamla daga.  Keypti þær í Samkaup og þær voru aldar upp í Njarðvíkunum.  En ég skal játa að ég prófaði bara einu sinni, þær voru ólseigar og ekkert varið í þær.  En kannski má elda þær öðruvísi svo þær verði ætar. kv, mamma.

Jóhanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 21:24

4 identicon

Halló Alda mín (og Addó auðvitað líka) - mikið er gaman að fylgjast með ykkur þarna.  Ekki að undra að þið séuð dauðþreytt eftir allt þrammið og þetta langa flug.  Merkilegt að fá að vita að prúttmenningin þarna er eins og í Tyrklandi - en þar nennir maður oft ekki einu sinni að skoða forvitnilega hluti, því maður fær engan frið til þess.  Man þó ekki til þess að neinn sölumannanna hafi vogað sér að halda eða toga í mann;  það hlýtur að vera mjög óþægilegt.  En verðið virðist vera fínt þarna - a.m.k. á fötum.  En þetta með pöddurnar er hroðalega krípí.  Kjötfýlan í Chinatown í San Francisco kom ælunni upp í háls á mér, en þar sá ég þó engar pöddur.  Ég þyrfti að vera við dauðans dyr úr prótínskorti til að geta lagt mér þær til munns.  Oj.  Gott að McDonalds og KFC komi venjulegum Íslendingum til bjargar þarna. / Er ekki veðrið flott í Peking?  Þótt veðrið sé búið að vera mjög fallegt hérna á skerinu um helgina, þá er ég ekki svo mikið sem búin að reka nefið út.  Er búin að sitja á rassinum og endurskipuleggja skráningu og geymslu á Swarovski-perlununum mínum (vona að fáir lesi þetta....hehe).  Ætla þó að fara í góðan göngutúr eftir hádegi - og e.t.v. að sigla með Sigga frá Kársnesinu og yfir í Hafnarfjarðarhöfn.  Það er víst ágætis byr. / Hlakka til að heyra um hinn stórkostlega Kínamúr. / Bestu kveðjur frá Böggu (og Sigga, sem situr hérna hjá mér).

Björg Rúnarsd. (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 10:49

5 identicon

Að versla í Kína er sem sagt ekki fyrir snertifælna, ég sé svipinn á þér alveg fyrir mér þegar konan hefur haldið í þig. Þér hefur ekki verið ó svo skemmt...!

Fyndið að kalla gjaldmiðilinn kínapeninga...það er eins og þú sért með einhverja matador peninga þarna að leika þér!   Mér skilst að þeir heiti yuan. (Smári segir það amk.)

Skemmtilegur fróðleikur hjá mömmu með kanínurnar.

Marta (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 11:39

6 identicon

Hansó, við pöntuðum ferðina á Kínamúrinn í gegnum hótelið okkar og þar var innifalinn morgunmatur og hádegismatur. Fengum tvö egg og eitt stykki beikon í morgunmat hehe... mjög vel útilátið ... eða þannig... en svo var rosa flottur hádegismatur á veitingastað við múrinn. Þar var um hefðbundinn kínamat að ræða, þ.e. hrísgrjón og svo alls konar kjöt í sósu. Svo eru egg með alls konar grænmeti líka voða vinsæll réttur. Maturinn við Kínamúrinn var því bara með hefðbundnu móti. Lofa að láta hundinn þinn í friði. Já og meðan ég man, Marta tók trefilinn þinn og ætlaði að koma honum til Hönnu Maríu þar sem ég hafði enga tíma til að koma honum til þín áður en ég fór út

Marta, mér líst ekkert á þessa snertiglöðu Kínverja. Þeir hafa sko aldrei heyrt um personal space!!!

Mamma, kannast ekkert við þessa kanínusögu. En man eftir kanínukökunum sem voru vinsælar afmæliskökur.

Erla, Addó er að skrifa ferðasögu dagsins í þessum töluðu orðum. Kínamúrinn var mjög áhugaverður og stórfenglegur.

Björg og Siggi, maturinn hér er almennt mjög góður (tel pöddurnar ekki með sem mat hehe). Veðrið er líka mjög fínt. Það er um 30° hiti yfir daginn og eitthvað kaldara á nóttunni. Það er mjög þægilegur hiti en það var þó ansi heitt að labba Kínamúrinn í þeim hita.  Ég hef ekki séð eina einustu perlubúð hérna en þær hljóta að vera hér einhvers staðar. Góða skemmtun í siglingunni.

Alda (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 12:39

7 identicon

Ha? Borðaðirðu hund, Alda? Riiiight... trúi þessu ekki, þú verður að sanna þetta einvhern  veginn, koma með vitni eða myndir heheeh...

Ég fékk bloggið hjá Mörtu, frábært að geta fylgst með ferðinni hjá ykkur!!

Bára (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 05:30

8 Smámynd: Addó og Alda

Bára, alveg satt.... Set inn mynd þegar ég hef betri tíma... Kv. Alda.

Addó og Alda, 31.8.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband